Alþjóðlegi alnæmisdagurinn:

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn: Rauði krossinn segir konum og stúlkum hættara við alnæmissmiti vegna kynbundins ofbeldis 30.11.2006

Í yfirlýsingu Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í tilefni af alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember segir að samtökin hafi vaxandi áhyggjur af aukningu á alnæmissmiti kvenna og stúlkna um allan heim. Ástæðurnar felast einkum í slæmum félagslegum aðstæðum kvenna sem eru fórnarlömb nauðgana, misnotkunar, mansals og vændis.

Rauði kross Íslands styrkir alnæmisverkefni í Malaví, Suður Afríku og Mósambík, en alnæmistíðni er hæst í heimi í löndunum í sunnanverðri Afríku þar sem allt að 40% íbúa eru alnæmissmitaðir. Skjólstæðingar Rauða krossins í þessum löndum eru flestir konur.

„Alnæmissmit vegna kynbundins og kynferðislegs ofbeldis  má líkja við neyðarástand á þessum slóðum,” segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni vegna alnæmisverkefna í sunnanverðri Afríku þar sem sóst er eftir 21 milljarði íslenskra króna sem verja á til baráttunnar gegn alnæmi næstu árin. Áætlað er að Rauði krossinn nái til um 50 milljón manna með forvarnarverkefnum sínum gegn útbreiðslu alnæmis á þessum slóðum, muni annast 250.000 alnæmissmitaða einstaklinga og styðja 460.000 börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis – sérstaklega þau sem misst hafa foreldra sína úr sjúkdómnum.

„Við verðum að ná til fleiri og gera meira til að stemma stigu við alnæmisfaraldrinum. Með alnæmisverkefnum sínum er Rauði krossinn að gera það sem hann gerir best - að nýta sér hið víðtæka net sjálfboðaliða samtakanna til að veita skjólstæðingum aðstoð í sinni heimabyggð,” segir Kristján.

Rauði krossinn hefur nú um árabil reynt að eyða fordómum í garð alnæmissmitaðra með verkefni sem nefnist „Komdu nær” en þar er reynt eyða rangfærslum um smitleiðir og fólk er hvatt til að sigrast á óttanum við sjúkdóminn. Fordómar ala á fáfræði, en með aukinni fræðslu og þekkingu á sjúkdómnum er hægt að draga úr alnæmissmiti í heiminum. Rúmlega 40 milljónir manna eru smitaðir af alnæmisveirunni og meira en 25 milljónir hafa látist af völdum sjúkdómsins á undanförnum tveimur áratugum.

Til baka...

 

© Rauði kross Íslands, Efstaleiti 9. Sími 570 4000, fax 570 4010, central@redcross.is

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband